Færsluflokkur: Bloggar

Ekkert val, inn á súlustað

Getur það einhvern tímann verið val konu að gerast súludansari? Ef það eru einhverjir þarna úti sem halda slíku fram, þá viljum við benda á að slíkt "val" er aldrei nema af nauðsyn einni. Þetta ræddum við í settinu í gær, út frá öllum hugsanlegum hliðum. Kolfinna hafði farið í rannsóknarleiðangur niður í bæ, á eina súlustað Rvíkur, (allir hinir eru fluttir í Kópavog), og hitti þar fyrir unga stúlku frá Búdapest sem hafði þó lítinn síma til að svara spurningum hennar, svo busy var hún við lapdansinn, en eitt kom þó fram: að hún gæti ekki hitt Kolfinnu utan vinnutíma nema með samþykki "the boss", eins og hún orðaði það. Það var fyrst þá sem réttlætiskennd kvennanna við borðið var misboðið - er hún virkileg skert ferðafrelsi? Er það réttmætt? Af hverju er það "the boss" sem ákveður hvern stúlkan má hitta? Og hvort hún megi hitta einhvern? Og það ekki ein, heldur í fylgd "the boss"..... Ef einungis um súludans er að ræða, eins og haldið er fram, hvers vegna þessi hræðsla? Jú stúlkunni sjálfri til öryggis, það er aldrei að vita hvar þessir pervertar leynast (þó all margir þeirra séu greinilega fastagestir á Óðali), en kannski meir til verndar "the boss", eða hvað? Í gær fór UNIFEM af stað með fjársöfnun til handa konum sem seldar eru mansali. Gott framtak, en hvers vegna ekki að beina líka sjónum að þeim konum sem hingað eru komnar? Gætum við farið af stað með eitthvert átakið, einhver félagasamtök, einhverja fjársöfnun, til að gefa þó þeim konum sem læstar eru inn á súlustöðunum einhvern annan valkost? Er einhver þarna úti sem myndi vilja taka þátt í slíku verkefni? Lát vita.

En það kom í ljós að nokkrar konur við settið höfðu líka einhvern tímann á lífsleiðinni farið á einhverjar búllur til að sjá karla strippa. Björk var á því að það væri barasta allt annað en að sjá konu strippa. Stemmningin væri allt önnur, konur skríkjandi, spólgraðar, jafnvel byrjaðar að afklæðast, manngreyinu þó sjaldnast til annars en gleði. Að sjá konu strippa hins vegar á búllu fulla af körlum væri ekkert annað en sorglegt og jafnvel skömmustulegt. Hvernig stendur á þessum mun?
Hvað finnst þér?


Kræklótt leg, klamedía og sílíkonfylltir skapabarmar

Kræklótt leg, afturlægt, eða fram? Aðeins kvensjúkdómalæknirinn þinn veit, og hann vill ekki segja þér hvernig legið þitt liggur, hans eigið trúnaðamál segir hann! En eigum við ekki rétt á að vita? Fákunnátta okkar kvennanna um okkar eigin líkama hefur áður komið fram í þáttunum hjá okkur, en Björk Jakobs gaf okkur sýnikennslu. Hún veit að hennar leg er afturlægt (líka leg Guðrúnar Helgu Jónasardóttur sem var gestur okkar og þær föðmuðust yfir þessum sameiginlegu innvolsiseinkennum, sannir comrades) og til að sýna okkur hvað það þýðir, tók hún upp banana sem lá á borðinu hjá okkur. Hún snéri honum upp og svo niður, violá, rétt eins og legið. En hvað með kræklótta legið? Þá snéri hún uppá bananahýðið! Ef að þetta byggir á svo einföldum staðreyndum væri það þá ekki ráð að koma upp einhvers konar legmælingasetri sem komi fólki saman? Ekkert gagn af einkamáladálkunum lengur! Í stað "hef gaman af ferðalögum, líkamsrækt og hráfæði" kæmi "er með kræklótt leg".....

En við töluðum þó um annað og meira en innvolsið. Við komumst að því að tölur yfir klamedíu á Íslandi eru mun hærri en gengur og gerist í nágrannalöndum. Er það vegna þess að skyndikynni fólks fara fram á börum bæjarins? Kæruleysið magnað upp með aðstoð bjórsins. 90% íslenskra para hafa kynnst á börum, segir statístíkin. Einn af þremur Íslendingum með klamedíu! Og hvað varð um smokkaherferðina sem einu sinni var gerð fyrir um 20 árum eða svo? Kannski komin tími á nýja herferð. Sérstaklega nú þegar framfarir í smokkagerð hafa verið svo miklar. Með öllum brögðum og í þokkabót "étanlegir". Giftu konurnar við borðið reyndust ekki vita mikið um þessar mörgu nýju tegundir smokka, þær minntust þess einungis að hafa liðið eins og inn á bílaverkstæði við að opna pakkann, ekki mjög eggjandi, en í dag er jafnvel hægt að fá einn með bernaisesósu, ekki að það hljómi meira eggjandi. Nema nautasteikin fylgi með. Umm...

Og þar sem við vorum komnar svo langt á þessari línu, gátum við ekki hætt. Ellý Ármanns, sem allt veit, leiddi okkur í þann óskaplega sannleik að til væru konur sem létu lagfæra á sér skapabarmana: einhverskonar sílikon fylltir skapabarmar. Í hvaða tilgangi áttum við erfitt með að skilja, en sumar okkar, með minni fordóma en aðrar, komust að því að þetta væri í stakasta lagi og algerlega skiljanlegt ef það bætir sálarlíf og sjálfsöruggi konunnar. Við hinar fordómafullu mæltum með geðdeildinni. Eftir þáttinn stakk Björk uppá því að færum á fjóra fætur og dæmdum um það hver okkar væri með flottustu skapabarmana. Þær sem ekki stæðust standardinn (sem við vissum þó ekki hver yrði) ættu að fara beint uppá spítala. Á hvaða deild væri að eigin vali.

Við auglýstum eftir einhverjum hugrökkum, sem væri til í að segja okkur meira af því sem kallast "swingers club". Ellý Ármanns úskýrði fyrir okkur piparjúnkunum að vinafólk hennar hefði fengið lykil sendan í pósti frá þessum klúbbi og að þau hjónin væru að velta því fyrir sér hvort þau ættu að láta slag standa. Við þessar einfeldningslegu erum afar spenntar að fá meira að vita um þetta fyrirbæri, sem Ellý segir að sé þó nokkuð algengt. Er það satt?
Hvað varðar klúrheitin hefur þessi þáttur líklegast slegið alla hina út!!!
Eða hvað finnst þér?


Saumaklúbbar í hávegum

mynd koldis

Sumar konur (og líka karlar) hafa horn í síðu saumklúbba - trúlega af því þær fá ekki að vera með - eða hvað?

En málið er - að saumaklúbbar eru stórmerkileg fyrirbæri - sem geyma mikinn kvenauð ... þar sem kvennamenning þrífst og dafnar.  

Þar er hlegið og grátið ... Þar er klæmst og kuklað  og þar er hæðst að körlum.  Þar er leitað ráða og skipst á skoðunum ... þar verða til ákveðnar leikreglur ... og þar eru allir jafnir - eða þannig. 

Setjum saumklúbba á dagskrá - ræðum um saumaklúbba.

Og nú auglýsum við eftir saumaklúbbum sem vilja koma í þáttinn til okkar og sötra sérrý og láta í sér heyra. Sendið okkur línu.   

Mér finnst ... raunveruleikasjónvarp á ÍNN ... þar sem konur eru við völd og ekkert er heilagt ... þar sem gömlu úreltu sjónvarps-leikreglurnar eru settar til hliðar og allt getur gerst. Mánudaga, miðvikudaga, föstudaga kl. 20-21 á ÍNN.  Umsjónarkonur eru Ásdís Olsen og Kolfinna Baldvinsdóttir.  Fastagestir þáttarins eru Björk Jakobs, Elísabet Jökuls, Ellý Ármanns, Kolbrún Bergþórs, Guðrún Bergmann og Katrín Júlíusdóttir. Þátturinn er sendur út á Digital Ísland á rás 20 og á visir.is http://vefmidlar.visir.is/VefTV/?channelID=&programID=7ac061d0-52d9-471f-971c-84d592bc22af


Burt með siðprýðina, lifi Tantra

Tantra æðið stóð sem hæst fyrir nokkrum árum og hjálpaði þorra Íslendinga að hugsa öðruvísi um kynlífið, að finna samhljóm, jafnvel hugljómun á æðstu stigum hins andlega þroska. En Guðjón Bergmann hefur ekki viljað tala um tantra síðan þáttunum lauk, og útskýrði fyrir okkur af hverju: viðtökurnar voru barnalegar, það var flissað og fulmblað og fjölmiðlar fóru á lægsta plan með tepruháttinn. Að mati Guðjóns var þetta ekki tekið alvarlega, heldur enn og aftur tekið á umræðunni um kynlíf sem dónalegt og klúrt, sem var þvert gegn tilgangi þáttanna. Sum hjónanna sem tóku þátt hafa liðið fyrir viðtökurnar. En við komumst að því að hugrakkara fólk væri ekki til. Fólk sem þorði að ýta við ramma "siðprýðinnar" sem við höfum talað nokkuð um í þáttunum, og ætti svo sannarlega hrós skilið. Það þarf hugrekki til að brjóta ísinn. Frumkvöðlar eru þeir venjulega kallaðir, sem opna fyrir margar flóðgáttirnar, sem of oft hefta frelsi hugans og flæði hamingjunnar.

Og þar sem við kvennsurnar vorum svo spenntar að heyra í Guðjóni, beindust allra okkar augu að honum. Eða var það eingöngu vegna þess að hann er karlmaður? Við höfum tekið eftir því áður að þegar við fáum karlmann í heimsókn, hættum við að gjamma hver ofan í aðra og hefjum áras á þennan aumingjans manns sem saklaus settist í stúdíó til okkur. Það kom annar karlmaður líka í heimsókn, ungur maður að nafni Guðmundur. Hann er kær vinur Elísabetar og það kom í ljós að Elísabet nýtir sér kunningsskap sinn við hann til að forvitnast um funksjón heilabús karlmannsinsins. Hann er hennar tilraunadýr sem hefur reynst henni vel. Þegar hún t.d. sendi kynlífsóra sína í email til elskuhuga síns, leið henni um stund sem hinum versta perra og að maðurinn hennar kæri myndi aldrei vilja tala við hana aftur. Guðmundur sannfærði hana þó um að þetta væri hin mesta hugsunarvilla, þarna hefði elskuhugi hennar aldeilis dottið í lukkupottinn. Draumur hvers (karl)manns sé að finna fyrir meiri greddu hjá henni en hjá sér sjálfum, sem hann heldur að hann þurfi sífellt að bæla. Þetta fannst okkur stórmerkilegt, en það kom líka í ljós að Guðmundur er maður sem hefur reynt ýmislegt: þegar hann var svo langt leiddur á hinum þyrnum stráða lífsins vegi, og átti sér enga aðra von en að fara á Vog 17 ára, hefði hann komist að því að hann hefði varla lítið annað uppá að bjóða lífinu, en algera hreinskilni gagnvart sjálfum sér og öðrum. Guðdómlegt að kynnast svona mönnum, sögðum við og föðmuðum hann.

Það er hart ef við þurfum að hafa sokkið svo djúpt til að öðlast einhvern skilning á sjálfum okkur og öðrum. En ætli það sé nóg að fara á námskeið? Guðrún mamma Guðjóns sem líka í settinu heldur alls kyns námsskeið sem hún kallar "sjálfsræktun". Kannski betra að fara þá leið en hina þyrnum stráðu? En þau mæðgin áttu í engum vandræðum með að tala um kynlíf og allt það sem pör gera sín á milli, og þetta fannst Ásdísi stórmerkilegt, því ekki alltaf er það svo að foreldrar og börn, sama á hvaða aldrei þau eru, nái því stigi, að tala um tilfinningaleg mál eða persónuleg. Henni tókst ekki einu sinni að fá saumaklúbbinn til að tala við sig um hennar persónulegu vandamál um daginn. Saumaklúbburinn lét sem ekkert væri þó allar vissu, hver í sínu horni, hvað gengi á í lífi hennar þessa dagana, það hafði m.a.s. segja komið í Séð og Heyrt! Og hvað henni fannst það óþægilegt! Þögnin sem allt drepur. En til hvers eru saumaklúbbar ef ekki til að veita manni stuðning á erfiðum stundum? Eru þeir þá eftir allt bara um það að sauma? Eða afsökun til að komast burt af heimilinu um stund? Eða til að komast á fyllerí án eiginmannsins? Það er stóra spurningin. Við erum að leita að saumaklúbb til að koma í þátt til okkar, til að taka þátt í umræðunum okkar. Veist þú um góðan saumaklúbb sem væri til?


Játningar karlrembu, "fake" leikhús, og baritónninn

Fjórar valkyrjur í setti og komnar á fullt, þegar tæknimaðurinn veifar: tæknilegir örðuleikar. Svonalagað gerist ekki bara á RÚV! Þegar upptakan hófst að nýju var ekki hægt að tala um það sama, nema að leika það, og það er bannað í þáttunum Mér finnst.... . Hann á að vera eins raunverulegur og hægt er. Umræðan um bókina Játningar karlrembu töpuðust því, en Kolfinna hafði sett fram kenningu um tilgang bókarinnar. Annað hvort sá rithöfundurinn fram á skyndigróða mikinn, því bókin verður án efa þýdd á mörg tungumál. Eða þá að hann sé kominn á það sem Ingvi Hrafn kallar "umönnunaraldurinn" og þurfi því að leggja inn gott orð hjá konum, til að þær fari ekki illa með hann á efri árum. Því rithöfundurinn er að nálgast sextugt, (auðvitað) sænskur og ævinlega verið framkvæmdarstjóri í ýmsum fyrirtækjum, setið í stjórnum o.s.frv. Svo getur náttúrulega verið að maðurinn sé að segja satt, að hann hafi skyndilega séð ljósið og vilji deila með öðrum þá skömm sem hann þjáist af yfir því að hafa alla tíð verið KARLREMBA. Öðrum víti til varnar. Bókin er því skyldulesning fyrir alla karlmenn í stjórnunarstöðum, en konur þekkja boðskapinn inn og út, en það gleður auðvitað hið meyra kvenmannshjarta að sjá karlmann rökstyðja það sem þær hafa tuðað og nöldrað yfir öll þessi ár, án þess að fá nokkra hlustun aðra en: æj vertu ekki að þessu nöldri.
Sjálfur segist hann hafa séð ljósið fyrst þegar dóttir hans fór út á vinnumarkaðinn, og þá uppgötvað um hvað þetta jafnréttistuð eiginlega snerist. Hann sjálfur hafði verið karlremba par excellence og meðvitað jafnt sem ómeðvitað notað öll þau ósýnilegu tól karla til að halda konum frá og jafnvel til að halda þeim niðri. En hér lauk umræðunni, tæknimaðurinn (karlmaður) stöðvaði upptökuna. Tæknileg vandræði eða hvað? Spurningin er þó: þegar karlmaður skrifar um misrétti kvenna er boðskapurinn þá fyrst marktækur? Við höldum áfram með þá umræðu í næsta þætti.

Þar sem í settinu voru tvær konur úr menningargeiranum, Björk Jakobs og Kolbrún Bergþórs, snérust umræðurnar ósjálfrátt um leikhús og bókmenntir. Og allar töluðu konurnar hver ofan í aðra. Það er erfitt að stýra umræðunum þegar fjórar málglaðar valkyrjur vilja allar láta skoðanir sínar í ljós. En fjör færðist fyrst í leikinn þegar rætt var um raunveruleika sjónvarp. Ásdís tilkynnti að áhugi hennar á leikhúsi og bókmenntum hefði orðið að engu eftir að hún fór að sökkva sér niður í alla þá bandaríska þætti sem sýna raunverulegt fólk takast á við raunveruleg vandamál. Leikhús fyrir henni er "fake". Auðvitað tóku Björk og Kolbrún andköf en í ljós kom þó að þær eru jafn mikil fórnarlömb raunveruleika sjónvarps og Ásdís. Og þegar þær voru farnar á kaf í þessar umræður svo heyrðust ekki orðaskil, stóð Kolfinna upp og fór á klósettið. Gæti ekki hafa verið raunverulegra:) En það er spurning þá hvort óperan eigi rétt á sér, eins óraunveruleg og hún er. Það kom þó í ljós að hinn fastráðni baritónn Íslensku Óperunnar er með eindæmum myndarlegur. Kannski við fáum hann til að koma í þáttinn?


kyssumst svo hringarnir festast saman

Þátturinn var svo sem ekki um neitt, allir geta talað um sitt eigið ágæti. En við náðum þó endasprett: um fjölmiðlana, hvert er þeirra hlutverk? Kolfinna hefur unnið í fjölmiðlum, en Ásdís er fjölmiðlafræðingur. Hver er munurinn? jah, þú verður bara að horfa á þáttinn. Ellý Ármanns sló okkur út af laginu, eins og alltaf. Spurning: Prumpar þú fyrir framan manninn þinn? Kolfinna, sem var að tala um rasisma og kynjakvóta, varð orðlaus. Þetta gerist mjög sjaldan. Ásdís varð mjög ánægð. Kolfinna verður aldrei orðlaus! Jah, Woody Allen sagði: the moment you take a shit infront of your partner, it's finished.
Erla Ragnars, söngkonan sjálf úr Dúkkulísunum, (þíð munið: ég vildi ég væri Pamela í Dallas yeah) sem er nú ýmsu vön, sagði við sjálfan sig: í þennan þátt kem ég ekki aftur.
Dominika sat og hlustaði á gömlu kerlingarnar tala eins og þær vissu allt en klikktu út með þessu: við stelpurnar kyssumst alltaf þegar við förum á jammið og stundum festast tunguhringarnir saman.
Hvað get ég sagt??? Hefur þú eitthvað að segja?

Mér finnst ... á ÍNN

kolla+disa

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Mér finnst ... raunveruleikasjónvarp á ÍNN ... þar sem konur eru við völd og ekkert er heilagt ... þar sem gömlu úreldu sjónvarps-leikreglurnar eru settar til hliðar og allt getur gerst. Mánudaga, miðvikudaga, föstudaga kl. 20-21 á ÍNN.  Umsjónarkonur eru Ásdís Olsen og Kolfinna Baldvinsdóttir.  Fastagestir þáttarins eru Björk jakobs, Elísabetu Jökuls, Ellý Ármanns, Kolbrúnu Bergþórs, Guðrúnu Bergmann og Katrínu Júlíusdóttur. Þátturinn er sendur út á Digital Ísland á rás 20 og á visir.is http://vefmidlar.visir.is/VefTV/?channelID=&programID=7ac061d0-52d9-471f-971c-84d592bc22af


Jón Viðar til að gagnrýna leikritið í ráðhúsinu?

Á þetta að vera fyndið? var fyrirsögn nýjasta leikhúsdóms Jóns Viðar. Við skvísurnar í Mér finnst... komumst að því að fyrirsögnin, eins og hún væri dónaleg, gæti líka vel átt við leikritið í ráðhúsinu. Í þættinum í gærkveldi kom það í ljós að sumum okkar finnst að fréttamennskan í kringum ráðhúsfarsann sé of dónaleg, en aðrar voru á því að fréttamennskan væri engan veginn upplýsandi, meira í tilkynningastíl, og því ekki úr vegi að bjóða Jóni Viðari að gagnrýna allt það sem þar gerist. Þá fyrst myndum við fá almennileg gagnrýni sem segði eitthvað, eins dónaleg hún er hvort sem er orðin. Því fjölmiðlar gegna jú því veigamikla hlutverki í okkar lýðræðisramma að vera gagnrýnisrödd okkar almennings gagnvart yfirvaldinu. En ef fjölmiðlarnir standa sig ekki í því og ef frambjóðendur hlusta ekki á slíkt, svara ekki einu sinni í símann þegar fjölmiðlar hringja, þá hljótum við að þurfa að endurskoða þann ramma. Hvað varð um það grundvallaratriði lýðræðisins að stjórnmálamenn þiggi vald sitt frá fólkinu, en ekki frá guði (þ.e.a.s guðföðurnum)?

Um daginn höfðum við komist að því að eitt af nauðsynlegri karaktereinkennum stjórnmálamanns væri SJARMI. Í gærkveldi komumst við að því að sjarmi Obama væri svo mikill að hið ótrúlega hefur gerst: Hillary virðist ekki ætla að merja þetta. Jafnvel Kolbrún Bergþórs hefur kolfallið fyrir honum, og þó afar erfitt sé að ímynda sér að hún eigi eitthvað sameiginlegt með hinum almenna bandaríska kjósanda, þá hafa þeir líklegast verið að falla fyrir því sama og hún. Hann er að vísu eini frambjóðandinn sem hefur lofað því að draga allt herlið frá Írak strax, sem gæti verið að spila stóran þátt, þó margar okkar efist um að stefnuskrá frambjóðandi spili nokkra rullu, sjarminn er allt sem þarf í þessa sölumennsku sem pólitíkin er því miður orðin. Eða eins og Ronald Reagan sagði einu sinni: Politics is supposed to be the second-oldest profession. I have come to realise that it bears a very close resemblance to the first.

Og út frá umræðunni um sjarmanum tókum við til við að tína til þá íslensku stjórnmálamenn sem hefðu hugsanlega eitthvað af þessu nauðsynlega tóli í þessari atvinnugrein. En við komum að tómum kofanum. Að vísu var nafn Bjarna Ben nefnt, en sama hvað við reyndum, það kom barasta ekki neitt annað upp í hugann á þessum fjórum konum sem sátu við borðið. Sjarmi virðist ekki vera eitt af því sem menn telja sig þurfa að hafa þegar þeir taka þá ákvörðun um að fara út í pólitík, þvert á móti, þeir telja sig þurfa vera þurra, leiðinlega, lúmska, stífa og staðlaða. Eða eru það kjósendurnir sem gera þá kröfu? Af hverju eru íslenskir kjósendur svona ólíkir öðrum? Ef við værum í Frakklandi þá væru Rvíkingar búnir að þramma göturnar þverar og endilangar með hávær mótmæli og Villi væri löngu búinn að segja af sér!

Það hefur stundum verið sagt að stjórnmálamenn þurfi að hugsa eins og skákmenn, þeir þurfa sífellt að horfa yfir borðið og hugsa leikinn til enda. Það ætti að standa í auglýsingunni næst þegar við lýsum eftir stjórnmálamönnum: verður að vita hvað hann er að gera og það fyrirfram. Því ella enda öll þessi grey á geðdeild, búnir að brenna allar brýr að baki sér, uppgefnir eftir að hafa gert sjálfum sér þann grikk að vaða út á völl stjórmálanna. Og margir sem sjá án efa mikið eftir því. Þeir hefðu getað átt auðvelt og gott líf sitjandi í stjórnum eða jafnvel stjórnað fyrirtækjum etc. En ætli kröfurnar í einkageiranum séu ekki þær sömu? Verður að vita hvað hann er að gera, verður að hugsa fram í tímann. Er það ekki nauðsynlegt í öllu því sem við tökum okkur fyrir hendur? Og hvað með sjarmann? Ætli hann skipti ekki miklu máli þegar menn klifra upp metorðastigann? Alla vega verða menn að hafa sýnt fram á getu og skilning á starfinu, annars verða þeir reknir. Og ef menn geta ekki sýnt fram á hvorugt þá hljóta þeir að átta sig á því og segja starfinu lausu til að finna sér eitthvað annað meir við hæfi. Við hljótum öll að hafa einhvern skilning á okkur sjálfum, á því hvað við getum og getum ekki. Eða hvað?

Kolbrún Bergþórs hljómaði þó eins og sannur republikani þegar hún lýsti því yfir að samkynhneigð kvenna væri einfaldlega "subbuleg". Ætli hún hafi meint kynlíf þeirra? Björk Jakobs kváði og sagði að kynlíf gagnkynhneigðra væri mun subbulegra. Hvað finnst þér?


Karlmenn "andlega samkynhneigðir"?

Karlmenn eru andlega samkynhneigðir, er orðasamband sem Þórhildur Þorleifsdóttir setti fram til að skilgreina hið sterka tengslanet karlmanna í íslensku samfélagi. Dísa Í Worldclass vitnaði í þessi orð Þórhildar til að ítreka hversu erfitt væri fyrir konur að komast inn í þetta tengslanet. Þess vegna hefðu konur í FKA (Félag kvenna í atvinnurekstri) sett fram lista yfir 100 konur sem eru allar í fyrirtækjarekstri eða stjórnun til þess að auðvelda leitina að konum í stjórnir, en viðkvæði karla er of oft það að svo erfitt sé að finna viljugar og frambærilegar konur til stjórnarsetu. Þetta framtak verður að duga ef stjórnvöld neita að nýta það tæki sem kallast kynjakvóti til að leiðrétti misrétti í þjóðfélaginu. Mikil andúð virðist ríkja meðal fólks á kynjakvótanum sem hefur þó verið tekinn upp víða í nágrannalöndum okkar og m.a.s. í Bandaríkjunum (affirmative action). Og er sú andúð eðlileg ef fólk skilur ekki nýtingu þessa tækis á réttan hátt.

Konur hafa hægt og hljótt verið að öðlast þáttökurétt í samfélögum víða um heim á síðustu öld, og hver var aðgöngumiðinn? Kosningarréttur sem var settur í lög. Á Íslandi fengu konur þetta tæki í hendurnar nokk snemma (1915), í Frakklandi 1964, í Sviss 1971. Hálf öld, heil öld síðan konur fengu að tala, vera, segja, en það er ekki þar með sagt að þeim verði hleypt sjálfkrafa inn í "tengslanet" ráðandi afla. Þeir sem hafa völdin, hleypa ekki svo auðveldlega öðrum að. Það liggur í hlutarins eðli. En við búum ekki lengur við lénsveldi heldur á tímum lýðræðis og mannréttinda. Stjórnarskrá Íslendinga sem annarra lýðræðisríkja, byggir á rétti fólksins sjálfs til að vera, segja og gera. Ýmis lög hafa verið sett til að tryggja aðkomu minnihlutahópa inn í þjóðfélagsstrúktúrinn og ekkert þykir sjálfsagðara í dag. Ef t.d. ekkert hefði verið að hafst (þá sérstaklega lagalega)í S-Afríku til að binda enda á apartheid, þá byggi enn 70% íbúa landsins við kerfisbundið misrétti. Ef "desegregation" í Bandaríkjunum hefði ekki verið leidd áfram með lögum og reglugerðum, byggi svart fólk enn í slömmum eins ríkasta lands heims og ætti sér engu útkomuleið (sem því miður of margir þó enn gera og þess vegna verið gripið til lagasetninga). Það er ekki hægt að festa sönnur á hina "andlegu samkynhneigð" karla en við vitum allar af henni.

Mörg rök eru notuð til að sýna fáranleika kynjakvóta. Og mörg rökin eru fáranlega. Barneignir eru t.d. notaðar gegn okkur, eins furðulega og það hljómar, því ekkert er fallegra en barneignir. Því miður er enn litið á barneignir sem einkamál kvenna, (stundum hjóna) og sagt að það sé fyrst og fremst vegna þeirra sem konur hafi ekki sama tíma, sömu getu til að vinna krefjandi vinnu. Hún hverfur af vinnumarkaðinum og auðvitað hverfa þá tekjur hennar líka. Með fyrsta barni tapar kona 1/3 af þeim hugsanlegu ævitekjum sem karl vinnur sér inn yfir ævina. Með öðru barni er hún búin að tapa helming. Á þetta virðist vera litið sem einkavandamál konunnar. Og líklegast þess vegna sem þjóðfélagið þykist ekki þurfa að taka ábyrgðina og koma til móts við þennan algenga "sjúkdóm", sem önnur hver kona þjáist af: fæðingu barns.

En barneignir eru og hafa aldrei verið einkamál kvenna, heldur upphaf og endir hvers þjóðfélags. Á ítalíu hafa þeir loks fattað þetta. Þar í landi hafa konur í æ ríkari mæli verið að mennta sig og gerast fjárhagslega sjálfstæðar, en yfirvaldið hefur ekki komið til móts við þessa staðreynd og því er það afar erfitt fyrir konur að samhæfa frama á vinnumarkaði móðurhlutverkinu. Þær hafa því æ fleiri tekið þann kostinn að sleppa barneignum, og ef þær eiga barn, þá er það eitt stykki svona rétt fyrir fertugt. Ímynd ítalskra kvenna er enn í dag hin mikla Mamma, með krakkaskarann á eftir sér, en raunin er önnur: í dag eiga ítalskar konur fæst börn allra evrópubúa. Þetta stefnir landinu í voða, því gamlingjarnir eru orðnir fleiri en vinnandi fólk, og ítalir hafa neyðst til að nýtast við innflytjendur til að fylla í það skarð sem stefnir efnahag landsins í mikla hnignun. Ástandið er svo slæmt að því er spáð að árið 2050 verði Ítölum búið að fækka um 20 milljónir eða um einn þriðja. Það var akkúrat fyrir sömu ástæðu sem hið mikla Rómaveldi leið undir lok.

Það er sárt að konur þurfi að "sanna" hagfræðilega hvers vegna þjóðfélagið ætti að koma til móts við barneignir og ummönnun barna með öllum hugsanlegum ráðum, að konum ætti ekki að vera "refsað" fyrir barneignirnar, heldur þvert á móti hvattar til þess. Og ef það eru barneignir sem eru að koma í veg fyrir að konur komist áfram framabrautina, að konur fái aðgang inn í "tengslanet" karla, þá hlýtur þjóðfélagið að þurfa að bregðast við því með öllum tiltækum ráðum, reglugerðum sem lögum. Annars hætta þær að eiga börn, og ekki megum við því!


Hillary eða Barack? Kynferði eða litaraft? Þörf eða löngun?

Hillary eða Barack? Hvílík bylting það yrði að sjá konu í Hvíta húsinu, en ekki yrði það síðri bylting að sjá svartan mann í Hvíta húsinu. Hvílík vandræði að þau skuli bæði fara fram á sama tíma. Hvernig færu kosningarnar ef Barack væri ekki í framboði og svo öfugt, ef Hillary væri ekki framboði? En ætli kynferði Hillary og litaraft Barack skipti meira máli en stefnumið þeirra? Það er sagt að svo sé tvímælalaust meðal svartra: þeir kjósi auðvitað mann úr sínum röðum, jafnt konur sem karlar. En ekki allar hvítar konur kjósa Hillary. Þær eru auðvitað mun stærri "minnihlutahópur" sem koma úr öllum stéttum samfélagsins. Svart fólk er auðvitað ennþá, þó svo að það sé líka að finna í ólíkum stéttum, enn neðar í skalanum en hvítar konur í samanburði við hvíta karlmenn. Þó eru sumir sem segja að hann sé ekki nógu svartur, bara enn annar Ivy League maður. Og margir sem segja hana ekki nógu mikla konu, enda Ivy League kona, sem ætti bara að líta á þau átta ár sem hún hefur þegar átt í Hvíta húsinu sem liðinn tíma. Eða eins og Kolla sagði: Kannski er hennar tími er liðinn.

Hann þykir ekki nógu mikill demókrati, hún of mikið. Hann sakaður um reynsluleysi, hún um of mikla reynslu. Sumir vilja nýtt afl/blóð inn, aðrir vilja sjá reynsluboltann takast á við verkefnið. Sumir segja hann hafa of lítil tengsl við hin ráðandi öfl þjóðfélagsins, aðrir segja hin ráðandi öfl hafa of mikil tök á henni. Hún ekki nógu sjarmerandi, hann of mikið. Það er vandlifað í hinum pólitíska heimi, ef það tekur enginn mið af því sem frambjóðendur segja vera sín stefnumið. Eða skiptir það kannski engu máli? Er fólk dæmt fyrst og fremst af því sem það "er", þ.e.a.s. í holdi sínu og gervi, ekki það sem það segist ætla að gera?

Um þetta ræddum við við Kollu og Kötu. Og snérum þessari umræðu uppá íslenskt samfélag. Kýs fólk sína frambjóðendur hér á landi út frá þessum þáttum fyrst og fremst en ekki út frá því í hvaða flokkum fólk er eða hvaða pólitísku hugmyndafræði fólk fylgir? Skiptir það meira máli úr hvaða landshlutum það er? Og hvað það hefur gert fyrir þá landshluta? Er það kannski svo að frambjóðendur eru hættir að setja þeirra politísku hugmyndafræði fram til þess að það nái kosningu á sjarma, reynslu, ættartengslum, fyrri störfum, þátttöku í íþróttastarfi, félagsmálum, klúbbastarfi etc? Eru frambjóðendur fyrst og fremstir dæmdir af kjósendum út frá sjónvarpsframkomu og fatastíl, getu þeirra til að halda ræðu, vera fyndnir, alþýðlegir, skemmtilegir, glæsilegir? Barack er farinn að vinna á í huga Kolbrúnar, eftir að hún hefur fengið að sjá meira af honum á skjánum, en Kata stendur föst með sinni Hillary, sérstaklega vegna gjörða hennar sem forsetafrú, þegar hún vann að gerð frumvarps um heilbrigðismál, sem þó náðist aldrei í gegn eins og frægt er. En þarna hefur Hillary forskot á Barack, hún hefur þegar setið í Hvíta húsinu og við getum öll dæmt hana út frá því sem hún vann að verandi þar, og síðar meir sem senator. Við vitum mun minna um Barack, enda hefur hann setið mun skemur á valdastól.

Bill Clinton hefur í seinni tíð fengið á sig árásir fyrir að hafa nýtt sér þennan þá "nýtilkomna" sannleik að kjósendur hefðu ekki áhuga á "stefnumiðum" heldur byggði hann allt sitt á eilífum könnunum um hvað kjósendur vildu fá að heyra og notaði víst meðvitaður aldrei í sinni kosningabaráttu nokkuð sem benti til þess að maðurinn ætti sér sterk, ósveigjanleg "pólitísk stefnumið". Tony Blair kópíeraði þá kosningabaráttu með tilætluðum árangri. Auðvitað eru eilífar pælingar meðal spunameistara hvaða aðferð er best og í þeim tilvikum sem ég nefni hér að ofan virkaði þessi aðferð með glans, en hún hefur hlotið mikla gagnrýni. Er kjósandinn viljalaust verkfæri í höndum spunameistara? Og er frambjóðandinn viljalaust verkfæri í höndum spunameistarans? En því svaraði einn af spunameisturum Blairs á mjög svo sannfærandi hátt: What's the point in having a mandate and not get elected? If you do have a mandate, do whatever it takes to get elected. Hlýðandi þessum orðum, hefur frambjóðandinn lítið val. Til að höfða til svo margra og ólíkra hópa samfélagsins þarf frambjóðandinn einfaldlega að gera það sem markaðsfræðingarnir segja. Framboð fer eftir sömu reglum og sölumennskan. Til að allir drekki mjólk, þá er auglýsingin svona: Mjólk er góð. Og mjólk er þá góð fyrir alla. En er það ekki græðgi af hálfu spunameistarans og frambjóðandans að ætlast til þess að ALLIR geti kosið einn og sama frambjóðandann? Og er það ekki græðgi að hálfu kjósandans að frambjóðandinn geti þjónað ÖLLUM hagsmunum þeirra? Eigum við kjósendur ekki að gera kröfur um að við fáum skýra stefnuskrá svo við getum valið A, B, C eða D, eins og við gerum í skoðanakönnunum? Sumir drekka fjörmjólk, léttmjólk, aðrir nýmjólk. Sumir geta barasta alls ekki drukkið mjólk, vegna þess að þeir eru með mjólkuróþol og kjósa því að drekka soja mjólk. En sá sem er með mjólkuróþol veit ekki að hann er með óþol fyrr en hann hefur drukkið mjólk. Hann verður s.s. að vita fyrir fram hvort maturinn sem hann er að fara að neita innihaldi mjólk eða ekki, annars verður hann veikur, eða sem verra er, gefur einfaldlega upp öndina.

Og það eru margir sem hafa gefið upp öndina þegar kemur að hinum vandlifaða heimi pólitíkurinnar. Bæði frambjóðendur og kjósendur. Kjósendur hafa í æ ríkari mæli misst trúnna á að pólitíkin snúist um eitthvað annað en sölumennsku, og æ fleira fólk, sem hefur mjög svo sterkar pólitískar skoðanir og gætu vel hugsað sér að fara í framboð, hefur misst löngunina til þess að taka þátt í þessum leik, sem virðist stundum snúast meir um það hver geta fólks er til að plotta fram og til baka, eða hver hafi besta spunameistarann. Þetta svokallaða lýðræði okkar, eins og það virkar í dag, er því engum í vil. Það eru allir að tapa.

En hugsið ykkur hvað þetta væri einfalt ef það væri svo að fólk kjósi eftir kynferði, litarafti, stéttastöðu, íþróttafélagi etc: konur myndu s.s. kjósa konur, svartir svarta, innflytjendur innflytjanda, verkamaður verkamann, ríkur maður ríkan mann, KR-ingur KR-ing, frímúrari frímúrara, feministi feminista, kvótaeigendur kvótaeigendur etc. En það hefur komið fram í könnunum að fólk kýs sjaldnast út frá þeirri stöðu/stétt sem það tilheyrir, heldur út frá þeirri stöðu/stétt sem það VILL tilheyra. Og þar liggur hundurinn grafinn. Skv spunameisturum á ekki að höfða til "þarfa" fólks heldur "langanna" þeirra. En hvað finnst þér um það?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband