21.1.2008 | 11:49
Fyrsti þátturinn
Þetta gekk vel. Vorum þó svolítið seinar í gang að ég held - ekki vissar um hvað við værum að gera, en svo kom það í ljós þegar á leið.
Við höfðum fengið töluvert af símtölum frá fjölmiðlum um morgunin og fengum þá spurninguna hvort tilgangurinn með þessum kvennaþætti væri einhvers konar mótmæli gegn Silfri Egils. Þetta fannst okkur ekki svo galin hugmynd og játtum því í skyndi. Hringdum svo í snatri í Egil og báðum hann um að vera leynigestur í þættinum. Og mikið var hann sætur og almennilegur, við höfðum varla sleppt orðinu og þá var hann mættur. Við vorum með áhyggjur af því að hann myndi ekki passa í sætið í settinu, pínulitlir barstólar sem rúma varla myndarlegan kvenmannsrass, hvað þá Egils. En þetta gekk upp. Og þar sem Egill var kominn í settið, ákváðum við að fjölga enn frekar í stúdóinu og hringja í Sóleyju Tómasdóttur, það var barasta við hæfi, þar sem debattið var upphaflega þeirra: af hverju eru konur innan við 20% þeirra sem teknir eru í viðtöl í fjölmiðlum? Þau reyndust þó vera bestu kumpánar þegar á reyndi. Við urðum eiginlega fyrir vonbrigðum hversu vel fór á með þeim, hefði verið svo skemmtilegt ef þau hefðu rifist örlítið.
Elísabet Jökuls og Ellý Ármanns eru ólíklegt par, fátt sem þær eiga sameiginlegt við fyrstu sýn, en það kom í ljós í þættinum sjálfum að báðar eru þær mjög svo opinskáar um kynlíf, á ólíkan hátt en eitthvað smellti. Elísabet felur ekki neitt í nýjustu bók sinni Lásasmiðurinn og Ellý virðist fátt fela í dægurmáladálkum sínum. Að vísu talar Elísabet út frá persónulegri reynslu en Ellý út frá "vinum sínum" sem eru þó oft "ímyndaðir" vinir, og því verðum við að segja að sögurnar hennar séu líka persónulegar. Við vorum auðvitað nokkuð taugatrekktar, ekki vissar að við myndum ná upp almennilegu flæði umræðna, og það er hægt að deila um það hvort það hafi tekist hjá okkur. Kannski vorum við of mikið að reyna að halda "conceptinu" réttu að þessi fyrsti þáttur tókst ekki sem skyldi. En við megum ekki gefast upp við fyrstu tilraun, þetta kemur allt saman.
Í kvöld mæta Björk Jakobs og Guðrún Bergmann. það verðum fróðlegt að sjá hvernig umræðuefnið, flæðið, talsmátinn verður öðruvísi með öðrum konum sem hafa allt ananrs konar bakgrunn heldur en Elísabet og Ellý.
Svo höldum við bara ótrauðar áfram.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.