Höld, bönd og skilnaðir hjóna

Þátturinn í gær var svo ólíkur þeim fyrri. Það skýrist af því að gestirnir voru af gerólíku sauðahúsi: Guðrún Bergmann og Björk Jakobs, sem hafði fengið Eddu Björgvins í heimsókn. Verð að viðurkenna að Guðrún Bergmann kom mér mjög svo á óvart, hreinskilnin var svo alger. Hún sagði frá eins og hún væri í eldhúsinu heima með systur sinni, ekki bláókunnugum konum fyrir framan myndavélar. Kannski áttum við að kunna eitthvað af þessum sögum, hún hefur án efa sagt einhvers staðar frá þeim áður. Eins og t.d. það að hún hafi eignast börn með manni sem var harðgiftur, og að eiginkona þessa manns hafi vel vitað af tilvist hennar og barnanna. En það var of mikið um að vera við borðið hjá okkur að við gátum ekki fengið betri skýringar á þessu, en mikið værum við forvitnar að heyra meir um þetta, og læra af öðrum tilfellum. Ætli þetta gerist oft? Hversu algeng eru framhjáhöld?
Ósjálfrátt fór umræðan í eina átt, þar sem við deildum um hjónabandið, aðallega þó um hvernig ætti að viðhalda því. Mér finnst þó að fólk ætti ekki að ganga of langt í því atferli, stundum eru hjónaböndin barasta komin á sinn endapunkt. Það sorglega er að þetta er orðið að heilli atvinnugrein, út um allan bæ hægt að finna "sérfræðinga" sem segja okkur allt um það hvernig á að halda í makann. Ég held að það segi sig sjálft að það eru ekki til neinar töfraformúlur sem geta kipp ónýtu hjónabandi í liðinn. Og þá kemur náttúrulega spurningin: af hverju eru hjónaskilnaðir enn álitnir svona sorglegir, agalegir, hræðilegir? Í flestum tilvikum er um ákvörðunartöku fólks að ræða sem léttir á fólki og opnar nýja heima, þó svo auðvitað séu undantekningar frá reglunni. Því þá ekki að gleðjast?
Það finnst mér...

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband