23.1.2008 | 18:06
Andleg veikindi okkar og borgarstjóra
Þó umræðuefnið hafi verið "hjónaskilnaður", leiddist það fljótt út í umræðuefni dagsins: borgarstjórnina nýju. Dagur Eggerts hafði notað hjónabandið sem myndlíkingu í sjónvarpinu í gær: að aldrei áður hefði hann séð gott hjónaband gufa upp án þess að til misklíðar kæmi áður. Auðvitað pikkuðu gestir okkar upp þennan þráð, þær Elísabet Jökuls, Kata Júl, og Ellý Ármanns - og þessi þáttur (enn og aftur) fór sína eigin leið, ekkert líkur þeim sem á undan komu. Og þar sem Ólafur F var orðinn aðalumræðuefnið, sérstaklega þegar Steinunn Valdís bættist í hópinn, þá ósjálfrátt leiddist sú umræða út í veikindi, þ.e.a.s. veikindi hans. Er það satt sem þeir segja að hann hafi átt við andleg veikinda að stríða? Við vorum síður að pæla í því, en komumst að þeirri niðurstöðu að það þætti jákvætt að ganga fram fyrir skjöldu og viðurkenna það frammi fyrir alþjóð ef svo væri, því annars færu sögurnar af stað - og það er aldrei að vita hvar þær enda. Margt gott fólkið hefur birst á forsíðum blaða eða í opinskáum viðtölum og rætt andleg veikindi sín og fengið klapp fyrir. Við komumst að þeirri niðurstöðu að það væri fólki til hróss að vera svo opinskátt. Og viti menn, hvað gerist ekki næst?
Elísabet segir okkur að hún hafi komið í þáttinn niðrá Granda beint ofan af geðdeild. Þetta þótti okkur öllum tíðindi. Hún sagði okkur á sinn fallega, ljóðræna, og hreinskilna hátt upp og ofan af því. Og hvað gerist þá? Ásdís ákvað að vera jafn frökk og segja hlustendum frá því þegar hún fór á geðdeild, haldin svo miklum kvíða. Nú er ekkert aftur snúið. Þessi þáttur opnaði algerlega nýjar víddir og kallar á að gestir okkar haldi áfram á þessari braut. Skyldi fólki líða svona vel í settinu hjá okkur?
Nú, það liggur því í augum uppi að Ólafur F fékk því falleinkunn frá konunum í Mér finnst... að segja ekki opinberlega hvaða veikindi það voru sem hrjáðu hann/hrjá hann. En það er of seint fyrir hann að laga þá ímynd sem hann hefur fengið á sig - sögurnar eru þegar búnar að hringsólast. Hann leit ekki neitt sérstaklega hraustlega út á fréttafundinum fræga þar sem gráklæddir menn stóðu gráir og guggnir upp við gráan vegginn, eins og hann hefði barasta smitað þá alla. 82% Reykvíkinga segjast ekki treysta honum til starfans. Maðurinn er búinn að mála sig út í horn. Kannski hann fái þá samúðina fyrir það, líklegast það eina sem gæti bjargað honum á þessari stundu.
Mér finnst það....
Athugasemdir
Er ekki málið að ég skoði stjörnukortið hans Ólafs og sjái hvernig þetta fer hjá honum? Vill einhver segir mér hvenær hann er fæddur (ár og dagur)?
Ellý Ármannsdóttir, 23.1.2008 kl. 18:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.