Stjörnunar engum í vil...

Ásdís sagði okkur rétt fyrir útsendingu að hún væri í mjög svo örgu skapi, Guðrún Bergmann tók undir og sagðist hafa eytt gærkveldinu í að öskra í koddann, Ellý var þó nokk róleg enda með litlu Ellý sína með sér sem horfði á móður sína stóískum níu mánaða gömlum augum. Börn virka svo gáfuð og gömul áður en þau byrja að tala! Litla Ellý var leynigesturinn okkar, því að Margrét formaður FKA var veðurteppt. En það verður að segjast eins og er, við vorum ekki í essinu okkar, líklegast veðrinu að kenna, þungur snjór þyngir sálina. En svo kom það í ljós frá stjörnuspekingunum tveimur (Ellý og Guðrún) að þessi "essis-skortur" ef svo má til orða taka, (hvaðan kemur þetta máltak annars "að vera í essinu sínu"), kom veðrinu ekkert við, ekki því stjórnleysi sem ríkir í borginni, ekki heldur persónulegum pirringi okkar, heldur einfaldlega stjörnunum. Þær eru að leika með okkur. Sem skýrir þá líka þá slæmu tíma sem hann Ólafur F er að upplifa, en skv stjörnulestri Ellýjar mun hann ekki eiga dagana sæla framundan. Né heldur Björn Ingi - enda eru þeir báðir í ljóninu. Þarna höfum við það. En stjörnurnar hennar Ellýar sögðu þó að hann Ólafur F myndi sitja allt sitt umsamda ár í stólnum valta, sem ætti kannski ekki að koma á óvart. Mótmæli hafa sjaldan borið árangur á ísalandinu kalda.

En ef allt er hægt að skýra út frá stöðu stjarnanna, hví þá að hafast nokkuð við? Ættum við þá ekki bara að halla okkur aftur og slaka á? Þær eru engum í vil þessa köldu vetrardaga. Við skvísurnar förum því bara upp í rúm með heitt kakó og góða bók og bíðum eftir því stjörnurnar raði sér upp á nýtt, þar til pirringurinn hefur liðið hjá, fárið í kringum borgarfarsann endi, og snjórinn bráðni...
Eða hvað finnst þér?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband