Þetta er allt saman skiljanlegt

Að vísu hófst þátturinn á einhverju muldri um Ólaf F en umræðan tók snögga u-beygju, rétt eins og í öðrum fjölmiðlum; nú gleymum við senn öllu þessu uppþoti enda liðnir þrír dagar, sem virðist vera meðaltalið sem fréttir sem þessar endast í hugum fólks og fjölmiðla. U-beygjan var nokk skrýtin; Ásdís ákvað skyndilega að kljúfa þá siðvöndu sem lurir innra með henni í herðar niður, en þó í spurnarformi: hún vildi fá að vita hvort Kolfinna hefði sofið hjá konu! Kolfinnu krossbrá en neyddist til að svara fljótt og örugglega, það má liggja á milli hluta hvort svarið hafi verið satt og heiðarlegt, en hvað gerir maður með fjórar vélar og fjórar konur fyrir framan sig? Jú, er það ekki bara eðlilegt að konur jafnt sem karlar reyni sig áfram með allt það sem lífið hefur uppá að bjóða, ef ekki bara fyrir forvitnis sakir? Ekki getur maður brugðist við með tepruhætti, í sjónvarpsþætti sem þykist vera "blátt áfram".

Það var kannski þessi spurning, þessi framhleypni Ásdísar, sem gerði það að verkum að aldrei hefur orðið "píka" verið sagt svo oft í einum sjónvarpsþætti. Björk, sem kallar engan ömmu sína, fór miklum um leiðbeiningar Þorgríms Þráins í bók hans Hvernig gerirðu konu þína hamingjusama. Þar varar hann karlmenn við því að veifa ekki á meðan hann gefur konu sinni #$%%& (get ekki skrifað orðið sem notað var í orðræðu, svo óskaplega klúrt á prenti, þið skiljið). Sumar voru ekki alveg að átta sig á þessum orðum Þorgríms: veifa hvað? veifa hverjum? (Kannski meinti hann "að veifa honum"?) Veifa henni? Svona til að minna hana á að hann sé enn þarna niðri - og líklegast alveg að drepast úr leiðindum? Til að skera úr um þetta ákváðum við að bjóða Þorgrími í næsta þátt.

En allt sem var látið flakka í þessum þætti var ekki allt svo klúrt og kynlífstengt. Þó komumst við að því að okkur fannst öllum nokk viðurstyggilegt að konur séu að gera sjálfum sér þann grikk að fara í það sem kallast "brasilískt vax" og er víst í tísku um þessar mundir. Meira þó í Árbæjarhverfinu heldur en í Vesturbænum, skv könnun sem gerð var með því að heimsækja allar sundlaugar höfuðborgarsvæðisins. Hvað skýrir það?

Við fengum Lísu Kristjáns í heimsókn, sem við höfum skýrt Lísa Skríla (ekki Grýla) því hún er sú sem fór af stað með undirskriftarsöfnun gegn klúðrinu í borgarstjórn, fyrst og fremst gegn slælegum vinnubrögðum, en hefur sætt mikilli gagnrýni fyrir að hafa fyllt ráðhúsið af "tómum skríl". Því skríllinn er ekki "almenningur", líklegast bara "almúgi" og sauðsvartur í þokkabót. Synd og skömm að skríll sem þessi skuli hafa kosningarrétt og skoðanir í þokkabót, að mati Kjartans Magnússonar og hans félaga. Fólk með skoðanir á að halda sér heima við, eða bara í skólanum, því að mati Kjartans og co voru þetta bara menntaskælingar, "bara börn".

Einu sinni voru menntaskólar landsins höfuðstöðvar pólitíkurinnar, þar sem ungviðið lærði að móta sér sjálfstæðar skoðanir og skapa leiðandi öfl sem oft höfðu viðtæk áhrif í þjóðfélaginu. Nú eru þetta börn og bölvaður skríll. Í menntaskóla lærðu menn eins og Kjartan og hans flokksfélagar að flytja ræður, standa í púlti, sitja í nefndum og skrifa fundarsköp, allt saman undirbúningur fyrir hinn stóra sandkassa sem beið þeim út í hinum stóra heimi. Þar lærðu þeir handtökin, sem þeir nota enn, rétt eins og þeir hafi aldrei yfirgefið litla sandkassann. En þeir vilja ekki fleiri í kassann, kassinn er þeirra! Og man maður vel hvað maður barðist gegn þeim yngri sem ætluðu sér líka að koma í kassann að moka. Engin miskunn! Sum sé - allt saman skiljanlegt!

Og eins og við höfum skilið þetta, þá skildum við líka að við konur erum í sífellu að reyna að "skilja", (ekki að skilja "við" eiginmenn okkar, þó svo við séum þær sem tökum þær ákvarðanir í 70% tilfella) heldur að skilja okkur sjálfar, og hvernig við þrífumst eða þrífumst ekki í okkar nánasta umhverfi (s.s. eiginmenn okkar líka). Við konur erum mun auðveldari markhópur þegar á að selja okkur einhvers konar námskeið - til að skilja okkur sjálfar. Það er náttúrulega skiljanlegt líka: allt frá fæðingu er okkur sagt að við séum ekki eins og karlmenn, s.s. öðruvísi, jafnvel annars flokks. Simone de Beauvoir gaf því nafn: "the second sex", því við fáum ekki einu sinni sömu laun fyrir sömu vinnu. Það liggur því í augum uppi að við þurfum að skilja hvað er að okkur. Þeir vilja ekki leyfa okkur að vera með í kassanum og við þurfum því að fara á námskeið til að læra að vera eins og þeir. Auðvitað var Guðrún Bergmann ekki sammála þessu, enda kona sem skilur flest. Hún er líka oft með námskeið til að kenna okkur hinum sem skiljum ekki neitt. Og auðvitað þurfum við að skilja af hverju við fáum ekki að vera með í stóra sandkassaleiknum. Og þegar við höfum skilið það, þá verður þetta allt svo skiljanlegt. Og þegar þetta verður svona skiljanlegt þá þurfum við ekkert að skilja. Þá getum við bara sagt: æj já greyið, hann á svo bágt. Þetta er allt mömmu hans að kenna!

En Lísa kom með góðan punkt: Hún benti á að karlmenn virðast ekki vera að berjast við þetta sama vandamál, að skilja sig, því jafnvel órennilegustu menn hafi ómælanlegt sjálfstraust til að vaða jafnvel í flottustu píurnar á barnum, þó að þeir viti sjálfir hvaða vonbrigði muni bíða þeirra þegar upp í ból er komið. Ekki verið að reyna að "skilja" sig þarna. Og eins og hún er nú hörð á sínu, þá kom hún okkur á óvart með því ráði sem hún gaf okkur: Ekki segja manninum "þú þarft að fara á sjálfskoðunarnámskeið" heldur einfaldlega að feika það eftir tvær mínútur og hypja sig svo heim. Jafnvel hörðustu feministar eru komnir á línuna: Æj greyið, ég skil hann!!

En við vitum þó alla vega að múslimskar konur hafa stundað "brasilískt vax" í aldaraðir, vegna hreinlætis, segja þær. En Þorgrímur segir að það auki ánægjuna í kynlífi. Komið á prent, þá hljótum við að skilja það! (Annars er það með öllu óskiljanlegt) Eða hvað finnst þér?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

flottur þáttur hjá ykkur stelpur.
Ég fylgist með ykkur á netninu og hef mikið gaman af- hinsvegar verð ég alveg miður mín þegar ég heyri ekki mannsins mál- stundum megið þið gefa hvor annari séns á að klára...!
Gangi ykkur vel- þetta er frábær þáttur sem verður að halda áfram:)
Mér finnst Margrét Pála sérstaklega frábær í síðasta þætti!

Ásta í útlöndum (IP-tala skráð) 4.2.2008 kl. 13:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband