4.2.2008 | 23:34
Hillary eða Barack? Kynferði eða litaraft? Þörf eða löngun?
Hillary eða Barack? Hvílík bylting það yrði að sjá konu í Hvíta húsinu, en ekki yrði það síðri bylting að sjá svartan mann í Hvíta húsinu. Hvílík vandræði að þau skuli bæði fara fram á sama tíma. Hvernig færu kosningarnar ef Barack væri ekki í framboði og svo öfugt, ef Hillary væri ekki framboði? En ætli kynferði Hillary og litaraft Barack skipti meira máli en stefnumið þeirra? Það er sagt að svo sé tvímælalaust meðal svartra: þeir kjósi auðvitað mann úr sínum röðum, jafnt konur sem karlar. En ekki allar hvítar konur kjósa Hillary. Þær eru auðvitað mun stærri "minnihlutahópur" sem koma úr öllum stéttum samfélagsins. Svart fólk er auðvitað ennþá, þó svo að það sé líka að finna í ólíkum stéttum, enn neðar í skalanum en hvítar konur í samanburði við hvíta karlmenn. Þó eru sumir sem segja að hann sé ekki nógu svartur, bara enn annar Ivy League maður. Og margir sem segja hana ekki nógu mikla konu, enda Ivy League kona, sem ætti bara að líta á þau átta ár sem hún hefur þegar átt í Hvíta húsinu sem liðinn tíma. Eða eins og Kolla sagði: Kannski er hennar tími er liðinn.
Hann þykir ekki nógu mikill demókrati, hún of mikið. Hann sakaður um reynsluleysi, hún um of mikla reynslu. Sumir vilja nýtt afl/blóð inn, aðrir vilja sjá reynsluboltann takast á við verkefnið. Sumir segja hann hafa of lítil tengsl við hin ráðandi öfl þjóðfélagsins, aðrir segja hin ráðandi öfl hafa of mikil tök á henni. Hún ekki nógu sjarmerandi, hann of mikið. Það er vandlifað í hinum pólitíska heimi, ef það tekur enginn mið af því sem frambjóðendur segja vera sín stefnumið. Eða skiptir það kannski engu máli? Er fólk dæmt fyrst og fremst af því sem það "er", þ.e.a.s. í holdi sínu og gervi, ekki það sem það segist ætla að gera?
Um þetta ræddum við við Kollu og Kötu. Og snérum þessari umræðu uppá íslenskt samfélag. Kýs fólk sína frambjóðendur hér á landi út frá þessum þáttum fyrst og fremst en ekki út frá því í hvaða flokkum fólk er eða hvaða pólitísku hugmyndafræði fólk fylgir? Skiptir það meira máli úr hvaða landshlutum það er? Og hvað það hefur gert fyrir þá landshluta? Er það kannski svo að frambjóðendur eru hættir að setja þeirra politísku hugmyndafræði fram til þess að það nái kosningu á sjarma, reynslu, ættartengslum, fyrri störfum, þátttöku í íþróttastarfi, félagsmálum, klúbbastarfi etc? Eru frambjóðendur fyrst og fremstir dæmdir af kjósendum út frá sjónvarpsframkomu og fatastíl, getu þeirra til að halda ræðu, vera fyndnir, alþýðlegir, skemmtilegir, glæsilegir? Barack er farinn að vinna á í huga Kolbrúnar, eftir að hún hefur fengið að sjá meira af honum á skjánum, en Kata stendur föst með sinni Hillary, sérstaklega vegna gjörða hennar sem forsetafrú, þegar hún vann að gerð frumvarps um heilbrigðismál, sem þó náðist aldrei í gegn eins og frægt er. En þarna hefur Hillary forskot á Barack, hún hefur þegar setið í Hvíta húsinu og við getum öll dæmt hana út frá því sem hún vann að verandi þar, og síðar meir sem senator. Við vitum mun minna um Barack, enda hefur hann setið mun skemur á valdastól.
Bill Clinton hefur í seinni tíð fengið á sig árásir fyrir að hafa nýtt sér þennan þá "nýtilkomna" sannleik að kjósendur hefðu ekki áhuga á "stefnumiðum" heldur byggði hann allt sitt á eilífum könnunum um hvað kjósendur vildu fá að heyra og notaði víst meðvitaður aldrei í sinni kosningabaráttu nokkuð sem benti til þess að maðurinn ætti sér sterk, ósveigjanleg "pólitísk stefnumið". Tony Blair kópíeraði þá kosningabaráttu með tilætluðum árangri. Auðvitað eru eilífar pælingar meðal spunameistara hvaða aðferð er best og í þeim tilvikum sem ég nefni hér að ofan virkaði þessi aðferð með glans, en hún hefur hlotið mikla gagnrýni. Er kjósandinn viljalaust verkfæri í höndum spunameistara? Og er frambjóðandinn viljalaust verkfæri í höndum spunameistarans? En því svaraði einn af spunameisturum Blairs á mjög svo sannfærandi hátt: What's the point in having a mandate and not get elected? If you do have a mandate, do whatever it takes to get elected. Hlýðandi þessum orðum, hefur frambjóðandinn lítið val. Til að höfða til svo margra og ólíkra hópa samfélagsins þarf frambjóðandinn einfaldlega að gera það sem markaðsfræðingarnir segja. Framboð fer eftir sömu reglum og sölumennskan. Til að allir drekki mjólk, þá er auglýsingin svona: Mjólk er góð. Og mjólk er þá góð fyrir alla. En er það ekki græðgi af hálfu spunameistarans og frambjóðandans að ætlast til þess að ALLIR geti kosið einn og sama frambjóðandann? Og er það ekki græðgi að hálfu kjósandans að frambjóðandinn geti þjónað ÖLLUM hagsmunum þeirra? Eigum við kjósendur ekki að gera kröfur um að við fáum skýra stefnuskrá svo við getum valið A, B, C eða D, eins og við gerum í skoðanakönnunum? Sumir drekka fjörmjólk, léttmjólk, aðrir nýmjólk. Sumir geta barasta alls ekki drukkið mjólk, vegna þess að þeir eru með mjólkuróþol og kjósa því að drekka soja mjólk. En sá sem er með mjólkuróþol veit ekki að hann er með óþol fyrr en hann hefur drukkið mjólk. Hann verður s.s. að vita fyrir fram hvort maturinn sem hann er að fara að neita innihaldi mjólk eða ekki, annars verður hann veikur, eða sem verra er, gefur einfaldlega upp öndina.
Og það eru margir sem hafa gefið upp öndina þegar kemur að hinum vandlifaða heimi pólitíkurinnar. Bæði frambjóðendur og kjósendur. Kjósendur hafa í æ ríkari mæli misst trúnna á að pólitíkin snúist um eitthvað annað en sölumennsku, og æ fleira fólk, sem hefur mjög svo sterkar pólitískar skoðanir og gætu vel hugsað sér að fara í framboð, hefur misst löngunina til þess að taka þátt í þessum leik, sem virðist stundum snúast meir um það hver geta fólks er til að plotta fram og til baka, eða hver hafi besta spunameistarann. Þetta svokallaða lýðræði okkar, eins og það virkar í dag, er því engum í vil. Það eru allir að tapa.
En hugsið ykkur hvað þetta væri einfalt ef það væri svo að fólk kjósi eftir kynferði, litarafti, stéttastöðu, íþróttafélagi etc: konur myndu s.s. kjósa konur, svartir svarta, innflytjendur innflytjanda, verkamaður verkamann, ríkur maður ríkan mann, KR-ingur KR-ing, frímúrari frímúrara, feministi feminista, kvótaeigendur kvótaeigendur etc. En það hefur komið fram í könnunum að fólk kýs sjaldnast út frá þeirri stöðu/stétt sem það tilheyrir, heldur út frá þeirri stöðu/stétt sem það VILL tilheyra. Og þar liggur hundurinn grafinn. Skv spunameisturum á ekki að höfða til "þarfa" fólks heldur "langanna" þeirra. En hvað finnst þér um það?
Athugasemdir
mér finnst ömurlegt að gera kröfur til þess að konur kjósi konur og svart fólk kjósi svart fólk, hvað eiga svartar konur t.d að gera? og mér finnst Obama líka heita alveg óþolandi nafni og alls ekki virka sérlega svartur, Hillary er með balls of steal og þ.a.l ekki nógu kvenleg, hehe. En það er alveg ljóst að annaðhvort þeirra verður næsti forseti, meiraðsegja repúblikönum lýst betur á þau heldur en eigin frambjóðendaefni, en málið er að Hill og Bama gætu þessvegna verið sama manneskjan - pólitík er ekkert annað en sölumennska, forsetar eru einsog tískumódel og einsog fyrri daginn sjáum við ekki hönnuðina því þeir eru bakvið tjöldin, í myrkrinu...
halkatla, 4.2.2008 kl. 23:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.