12.2.2008 | 11:47
Jón Viðar til að gagnrýna leikritið í ráðhúsinu?
Á þetta að vera fyndið? var fyrirsögn nýjasta leikhúsdóms Jóns Viðar. Við skvísurnar í Mér finnst... komumst að því að fyrirsögnin, eins og hún væri dónaleg, gæti líka vel átt við leikritið í ráðhúsinu. Í þættinum í gærkveldi kom það í ljós að sumum okkar finnst að fréttamennskan í kringum ráðhúsfarsann sé of dónaleg, en aðrar voru á því að fréttamennskan væri engan veginn upplýsandi, meira í tilkynningastíl, og því ekki úr vegi að bjóða Jóni Viðari að gagnrýna allt það sem þar gerist. Þá fyrst myndum við fá almennileg gagnrýni sem segði eitthvað, eins dónaleg hún er hvort sem er orðin. Því fjölmiðlar gegna jú því veigamikla hlutverki í okkar lýðræðisramma að vera gagnrýnisrödd okkar almennings gagnvart yfirvaldinu. En ef fjölmiðlarnir standa sig ekki í því og ef frambjóðendur hlusta ekki á slíkt, svara ekki einu sinni í símann þegar fjölmiðlar hringja, þá hljótum við að þurfa að endurskoða þann ramma. Hvað varð um það grundvallaratriði lýðræðisins að stjórnmálamenn þiggi vald sitt frá fólkinu, en ekki frá guði (þ.e.a.s guðföðurnum)?
Um daginn höfðum við komist að því að eitt af nauðsynlegri karaktereinkennum stjórnmálamanns væri SJARMI. Í gærkveldi komumst við að því að sjarmi Obama væri svo mikill að hið ótrúlega hefur gerst: Hillary virðist ekki ætla að merja þetta. Jafnvel Kolbrún Bergþórs hefur kolfallið fyrir honum, og þó afar erfitt sé að ímynda sér að hún eigi eitthvað sameiginlegt með hinum almenna bandaríska kjósanda, þá hafa þeir líklegast verið að falla fyrir því sama og hún. Hann er að vísu eini frambjóðandinn sem hefur lofað því að draga allt herlið frá Írak strax, sem gæti verið að spila stóran þátt, þó margar okkar efist um að stefnuskrá frambjóðandi spili nokkra rullu, sjarminn er allt sem þarf í þessa sölumennsku sem pólitíkin er því miður orðin. Eða eins og Ronald Reagan sagði einu sinni: Politics is supposed to be the second-oldest profession. I have come to realise that it bears a very close resemblance to the first.
Og út frá umræðunni um sjarmanum tókum við til við að tína til þá íslensku stjórnmálamenn sem hefðu hugsanlega eitthvað af þessu nauðsynlega tóli í þessari atvinnugrein. En við komum að tómum kofanum. Að vísu var nafn Bjarna Ben nefnt, en sama hvað við reyndum, það kom barasta ekki neitt annað upp í hugann á þessum fjórum konum sem sátu við borðið. Sjarmi virðist ekki vera eitt af því sem menn telja sig þurfa að hafa þegar þeir taka þá ákvörðun um að fara út í pólitík, þvert á móti, þeir telja sig þurfa vera þurra, leiðinlega, lúmska, stífa og staðlaða. Eða eru það kjósendurnir sem gera þá kröfu? Af hverju eru íslenskir kjósendur svona ólíkir öðrum? Ef við værum í Frakklandi þá væru Rvíkingar búnir að þramma göturnar þverar og endilangar með hávær mótmæli og Villi væri löngu búinn að segja af sér!
Það hefur stundum verið sagt að stjórnmálamenn þurfi að hugsa eins og skákmenn, þeir þurfa sífellt að horfa yfir borðið og hugsa leikinn til enda. Það ætti að standa í auglýsingunni næst þegar við lýsum eftir stjórnmálamönnum: verður að vita hvað hann er að gera og það fyrirfram. Því ella enda öll þessi grey á geðdeild, búnir að brenna allar brýr að baki sér, uppgefnir eftir að hafa gert sjálfum sér þann grikk að vaða út á völl stjórmálanna. Og margir sem sjá án efa mikið eftir því. Þeir hefðu getað átt auðvelt og gott líf sitjandi í stjórnum eða jafnvel stjórnað fyrirtækjum etc. En ætli kröfurnar í einkageiranum séu ekki þær sömu? Verður að vita hvað hann er að gera, verður að hugsa fram í tímann. Er það ekki nauðsynlegt í öllu því sem við tökum okkur fyrir hendur? Og hvað með sjarmann? Ætli hann skipti ekki miklu máli þegar menn klifra upp metorðastigann? Alla vega verða menn að hafa sýnt fram á getu og skilning á starfinu, annars verða þeir reknir. Og ef menn geta ekki sýnt fram á hvorugt þá hljóta þeir að átta sig á því og segja starfinu lausu til að finna sér eitthvað annað meir við hæfi. Við hljótum öll að hafa einhvern skilning á okkur sjálfum, á því hvað við getum og getum ekki. Eða hvað?
Kolbrún Bergþórs hljómaði þó eins og sannur republikani þegar hún lýsti því yfir að samkynhneigð kvenna væri einfaldlega "subbuleg". Ætli hún hafi meint kynlíf þeirra? Björk Jakobs kváði og sagði að kynlíf gagnkynhneigðra væri mun subbulegra. Hvað finnst þér?
Athugasemdir
...nei ég skildi orð Bjarkar þannig að ef lesbíurnar væru subbulegar þá væru nú hommarnir fyrst subbulegir!!
SB (IP-tala skráð) 12.2.2008 kl. 13:26
Mjög skemmtilegur þáttir væri ennþá skemmtilegra að hlusta á ykkur ef þið væruð ekki stanslaust að grípa fram í fyrir hvorri annari og talandi allara í einu
IL (IP-tala skráð) 12.2.2008 kl. 15:00
Alveg hárrétt hjá þér - takk - en hún endaði þó með því að segja að gagnkynhneigðir væru líklegast þeir subbulegustu:) Kannski það hafi ekki heyrst því við tölum allar hver ofan í aðra - rétt - upphaflega var það hluti af conceptinu okkar, en við erum samt að reyna að laga þetta......
Bestu kveðjur, Kolfinna
Mér finnst ..., 12.2.2008 kl. 15:40
Merfinst þi allar fregar sætar en heldmest up pá konfinu Bandvils og doldi up pá áSdýsi möller. enn þáturyn erof hagrisynaður fyryr mýns smekks.
Silli fizkur (IP-tala skráð) 14.2.2008 kl. 04:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.