Þetta er allt saman skiljanlegt

Að vísu hófst þátturinn á einhverju muldri um Ólaf F en umræðan tók snögga u-beygju, rétt eins og í öðrum fjölmiðlum; nú gleymum við senn öllu þessu uppþoti enda liðnir þrír dagar, sem virðist vera meðaltalið sem fréttir sem þessar endast í hugum fólks og fjölmiðla. U-beygjan var nokk skrýtin; Ásdís ákvað skyndilega að kljúfa þá siðvöndu sem lurir innra með henni í herðar niður, en þó í spurnarformi: hún vildi fá að vita hvort Kolfinna hefði sofið hjá konu! Kolfinnu krossbrá en neyddist til að svara fljótt og örugglega, það má liggja á milli hluta hvort svarið hafi verið satt og heiðarlegt, en hvað gerir maður með fjórar vélar og fjórar konur fyrir framan sig? Jú, er það ekki bara eðlilegt að konur jafnt sem karlar reyni sig áfram með allt það sem lífið hefur uppá að bjóða, ef ekki bara fyrir forvitnis sakir? Ekki getur maður brugðist við með tepruhætti, í sjónvarpsþætti sem þykist vera "blátt áfram".

Það var kannski þessi spurning, þessi framhleypni Ásdísar, sem gerði það að verkum að aldrei hefur orðið "píka" verið sagt svo oft í einum sjónvarpsþætti. Björk, sem kallar engan ömmu sína, fór miklum um leiðbeiningar Þorgríms Þráins í bók hans Hvernig gerirðu konu þína hamingjusama. Þar varar hann karlmenn við því að veifa ekki á meðan hann gefur konu sinni #$%%& (get ekki skrifað orðið sem notað var í orðræðu, svo óskaplega klúrt á prenti, þið skiljið). Sumar voru ekki alveg að átta sig á þessum orðum Þorgríms: veifa hvað? veifa hverjum? (Kannski meinti hann "að veifa honum"?) Veifa henni? Svona til að minna hana á að hann sé enn þarna niðri - og líklegast alveg að drepast úr leiðindum? Til að skera úr um þetta ákváðum við að bjóða Þorgrími í næsta þátt.

En allt sem var látið flakka í þessum þætti var ekki allt svo klúrt og kynlífstengt. Þó komumst við að því að okkur fannst öllum nokk viðurstyggilegt að konur séu að gera sjálfum sér þann grikk að fara í það sem kallast "brasilískt vax" og er víst í tísku um þessar mundir. Meira þó í Árbæjarhverfinu heldur en í Vesturbænum, skv könnun sem gerð var með því að heimsækja allar sundlaugar höfuðborgarsvæðisins. Hvað skýrir það?

Við fengum Lísu Kristjáns í heimsókn, sem við höfum skýrt Lísa Skríla (ekki Grýla) því hún er sú sem fór af stað með undirskriftarsöfnun gegn klúðrinu í borgarstjórn, fyrst og fremst gegn slælegum vinnubrögðum, en hefur sætt mikilli gagnrýni fyrir að hafa fyllt ráðhúsið af "tómum skríl". Því skríllinn er ekki "almenningur", líklegast bara "almúgi" og sauðsvartur í þokkabót. Synd og skömm að skríll sem þessi skuli hafa kosningarrétt og skoðanir í þokkabót, að mati Kjartans Magnússonar og hans félaga. Fólk með skoðanir á að halda sér heima við, eða bara í skólanum, því að mati Kjartans og co voru þetta bara menntaskælingar, "bara börn".

Einu sinni voru menntaskólar landsins höfuðstöðvar pólitíkurinnar, þar sem ungviðið lærði að móta sér sjálfstæðar skoðanir og skapa leiðandi öfl sem oft höfðu viðtæk áhrif í þjóðfélaginu. Nú eru þetta börn og bölvaður skríll. Í menntaskóla lærðu menn eins og Kjartan og hans flokksfélagar að flytja ræður, standa í púlti, sitja í nefndum og skrifa fundarsköp, allt saman undirbúningur fyrir hinn stóra sandkassa sem beið þeim út í hinum stóra heimi. Þar lærðu þeir handtökin, sem þeir nota enn, rétt eins og þeir hafi aldrei yfirgefið litla sandkassann. En þeir vilja ekki fleiri í kassann, kassinn er þeirra! Og man maður vel hvað maður barðist gegn þeim yngri sem ætluðu sér líka að koma í kassann að moka. Engin miskunn! Sum sé - allt saman skiljanlegt!

Og eins og við höfum skilið þetta, þá skildum við líka að við konur erum í sífellu að reyna að "skilja", (ekki að skilja "við" eiginmenn okkar, þó svo við séum þær sem tökum þær ákvarðanir í 70% tilfella) heldur að skilja okkur sjálfar, og hvernig við þrífumst eða þrífumst ekki í okkar nánasta umhverfi (s.s. eiginmenn okkar líka). Við konur erum mun auðveldari markhópur þegar á að selja okkur einhvers konar námskeið - til að skilja okkur sjálfar. Það er náttúrulega skiljanlegt líka: allt frá fæðingu er okkur sagt að við séum ekki eins og karlmenn, s.s. öðruvísi, jafnvel annars flokks. Simone de Beauvoir gaf því nafn: "the second sex", því við fáum ekki einu sinni sömu laun fyrir sömu vinnu. Það liggur því í augum uppi að við þurfum að skilja hvað er að okkur. Þeir vilja ekki leyfa okkur að vera með í kassanum og við þurfum því að fara á námskeið til að læra að vera eins og þeir. Auðvitað var Guðrún Bergmann ekki sammála þessu, enda kona sem skilur flest. Hún er líka oft með námskeið til að kenna okkur hinum sem skiljum ekki neitt. Og auðvitað þurfum við að skilja af hverju við fáum ekki að vera með í stóra sandkassaleiknum. Og þegar við höfum skilið það, þá verður þetta allt svo skiljanlegt. Og þegar þetta verður svona skiljanlegt þá þurfum við ekkert að skilja. Þá getum við bara sagt: æj já greyið, hann á svo bágt. Þetta er allt mömmu hans að kenna!

En Lísa kom með góðan punkt: Hún benti á að karlmenn virðast ekki vera að berjast við þetta sama vandamál, að skilja sig, því jafnvel órennilegustu menn hafi ómælanlegt sjálfstraust til að vaða jafnvel í flottustu píurnar á barnum, þó að þeir viti sjálfir hvaða vonbrigði muni bíða þeirra þegar upp í ból er komið. Ekki verið að reyna að "skilja" sig þarna. Og eins og hún er nú hörð á sínu, þá kom hún okkur á óvart með því ráði sem hún gaf okkur: Ekki segja manninum "þú þarft að fara á sjálfskoðunarnámskeið" heldur einfaldlega að feika það eftir tvær mínútur og hypja sig svo heim. Jafnvel hörðustu feministar eru komnir á línuna: Æj greyið, ég skil hann!!

En við vitum þó alla vega að múslimskar konur hafa stundað "brasilískt vax" í aldaraðir, vegna hreinlætis, segja þær. En Þorgrímur segir að það auki ánægjuna í kynlífi. Komið á prent, þá hljótum við að skilja það! (Annars er það með öllu óskiljanlegt) Eða hvað finnst þér?


Mér finnst ... konurnar

Mér finnst hópurinnMagga Pála, Elísabet Jökuls, Ásdís Olsen, Ellý Ármanns, Kolfinna Baldvins, Guðrún Bergmann, Björk Jakobs, Katrín Júlíusdóttir ... á myndina vantar Kolbrúnu Bergþórs og Ólínu Þorvarðar.

Þátturinn er sendur út á Digital Ísland á rás 20 og á visi.is: http://vefmidlar.visir.is/VefTV/?channelID=&programID=7ac061d0-52d9-471f-971c-84d592bc22af


Valdabarátta alls staðar: í sjoppunni, í hjónabandinu, í borginni

Þátturinn hófst á orðum Sartre: "Love is a commitment to your partner's happiness" - en skvísurnar við borðið voru þó ekki á einu orði hvort svo skilyrðislaus ást væri til í dagsdaglegum veruleika. Kolbrún ásakaði Kolfinnu fyrir að vera kaldrifjuð tæfa, en hún vildi meina að hin venjulega ást væri búin til milli tveggja einstaklinga byggð á hagsmunum hvors fyrir sig. Kona hittir mann og mátar hann við sig, passar hann inn í mitt líf? Væri ekki einfaldara að lifa lífinu ein í stað þess að standa í þessu eilífa ströggli? Nei, því löngunin til að vera elskaður er öllu yfirsterkari, sem hins vegar kallar á að þú elskir einhvern, hvernig annars fengir þú að finna þessa ást? Og hvað er það annað en eigingirni? Þínir eigin hagsmunir?

Gætum við elskað svo mikið að vera einfaldlega hamingjusamar ef sá sem við elskum er hamingjusamur, sama hversu langt í burtu hann er? Sama þó hann elski þig ekki til baka? Er slík óeigingirni til? Eða er hjónabandið ekki byggt á ást, er það kannski frekar byggt á vinskap og væntumþykju? Vana og festu? Þar til hagsmunir rekast á?

Kolbrún hrópaði upp yfir sig af hneyslun; hvað varð um rómantíkina? Kolbrún setti fram mjög skýra mynd af hinum "fullkomna" manni, manninum sem hún er að leita að. Ásdís bauðst til að koma kröfum hennar á framfæri. Mér finnst... leitar nú að þessum ólíklega manni, hvar sem hann leynist, ef hann er til. Hann má ekki drekka of mikið og verður að vera heimakær. (Erfið krafa?)

Elísabet bætti um betur, varð enn meir kaldrifjuð, og benti okkur á að við lifum í heimi fjandseminnar. Alls staðar leynist valdabaráttan, jafnvel þegar við sinnum svo einföldum verkefnum eins og að versla kók og lakkrís út í sjoppu. Þessi valdabarátta er sterkust þegar kemur að samskiptum kynjanna: hvað eigum við að segja við hann án þess að koma algerlega upp um okkur? Eða er ástin um það að leggja öll spilin á borðið og gefa frjálslega upp alla okkar galla og veikleika? En hvað ef hann svo snýr við okkur baki? Mun hann þá nota það gegn okkur?

Valdabaráttan birtist okkur í ólíklegustu myndum alla daga. Sjálfstæðismenn sýna nú klærnar og vaða uppi alls staðar til að skamma alla þá sem kjafta um veikindi Ólafs F. Þeim er nokk sama um heilsufar aumingja mannsins, en mjög annt um að vera í stjórn. Þeir eru auðvitað manna hamingjusamastir á meðan umræðan snýst öll um Ólaf F en ekki hagsmunapot og hefnigirni þeirra sjálfra, sem er auðvitað mun verri lasleiki. "Geðveiki er læknanleg en heimska ekki" sagði Jónas frá Hriflu svo kaldhæðnislega þegar hann var ásakaður um geðveiki. Hann kunni þó að svara fyrir sig!


Mér finnst ... konurnar

merfinnst-hopurinnFlott mynd hjá Friðþjófi Helgasyni af Mér finnst ... konunum.

Magga Pála, Elísabet Jökuls, Ásdís Olsen, Ellý Ármanns, Kolfinna Baldvins, Guðrún Bergamann, Björk Jakobs, Katrín Júlíusdóttir. 


Stjörnunar engum í vil...

Ásdís sagði okkur rétt fyrir útsendingu að hún væri í mjög svo örgu skapi, Guðrún Bergmann tók undir og sagðist hafa eytt gærkveldinu í að öskra í koddann, Ellý var þó nokk róleg enda með litlu Ellý sína með sér sem horfði á móður sína stóískum níu mánaða gömlum augum. Börn virka svo gáfuð og gömul áður en þau byrja að tala! Litla Ellý var leynigesturinn okkar, því að Margrét formaður FKA var veðurteppt. En það verður að segjast eins og er, við vorum ekki í essinu okkar, líklegast veðrinu að kenna, þungur snjór þyngir sálina. En svo kom það í ljós frá stjörnuspekingunum tveimur (Ellý og Guðrún) að þessi "essis-skortur" ef svo má til orða taka, (hvaðan kemur þetta máltak annars "að vera í essinu sínu"), kom veðrinu ekkert við, ekki því stjórnleysi sem ríkir í borginni, ekki heldur persónulegum pirringi okkar, heldur einfaldlega stjörnunum. Þær eru að leika með okkur. Sem skýrir þá líka þá slæmu tíma sem hann Ólafur F er að upplifa, en skv stjörnulestri Ellýjar mun hann ekki eiga dagana sæla framundan. Né heldur Björn Ingi - enda eru þeir báðir í ljóninu. Þarna höfum við það. En stjörnurnar hennar Ellýar sögðu þó að hann Ólafur F myndi sitja allt sitt umsamda ár í stólnum valta, sem ætti kannski ekki að koma á óvart. Mótmæli hafa sjaldan borið árangur á ísalandinu kalda.

En ef allt er hægt að skýra út frá stöðu stjarnanna, hví þá að hafast nokkuð við? Ættum við þá ekki bara að halla okkur aftur og slaka á? Þær eru engum í vil þessa köldu vetrardaga. Við skvísurnar förum því bara upp í rúm með heitt kakó og góða bók og bíðum eftir því stjörnurnar raði sér upp á nýtt, þar til pirringurinn hefur liðið hjá, fárið í kringum borgarfarsann endi, og snjórinn bráðni...
Eða hvað finnst þér?


Fluga á vegg á kvennaklósettinu

"Mér finnst ... er eins og dream come true fyrir karlmenn ... eins og að vera fluga á vegg á kvennaklósettinu."

Haft eftir Jóni Heiðari Gunnarssyni heimspekingi og tengdasyni Ásdísar

Það reynist mörgum erfitt að finna þennan umtalaða þátt ... hann er sendur út á sjónvarpsstöðinni ÍNN - rás 20 á Digital Ísland - á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum kl. 20:00, 22:00 og á tveggja tíma fresti í sólarhring þar á eftir.

Þættirnir eru líka aðgengilegir á visi.is: http://vefmidlar.visir.is/VefTV/?channelID=INN&programID=7ac061d0-52d9-471f-971c-84d592bc22


Andleg veikindi okkar og borgarstjóra

Þó umræðuefnið hafi verið "hjónaskilnaður", leiddist það fljótt út í umræðuefni dagsins: borgarstjórnina nýju. Dagur Eggerts hafði notað hjónabandið sem myndlíkingu í sjónvarpinu í gær: að aldrei áður hefði hann séð gott hjónaband gufa upp án þess að til misklíðar kæmi áður. Auðvitað pikkuðu gestir okkar upp þennan þráð, þær Elísabet Jökuls, Kata Júl, og Ellý Ármanns - og þessi þáttur (enn og aftur) fór sína eigin leið, ekkert líkur þeim sem á undan komu. Og þar sem Ólafur F var orðinn aðalumræðuefnið, sérstaklega þegar Steinunn Valdís bættist í hópinn, þá ósjálfrátt leiddist sú umræða út í veikindi, þ.e.a.s. veikindi hans. Er það satt sem þeir segja að hann hafi átt við andleg veikinda að stríða? Við vorum síður að pæla í því, en komumst að þeirri niðurstöðu að það þætti jákvætt að ganga fram fyrir skjöldu og viðurkenna það frammi fyrir alþjóð ef svo væri, því annars færu sögurnar af stað - og það er aldrei að vita hvar þær enda. Margt gott fólkið hefur birst á forsíðum blaða eða í opinskáum viðtölum og rætt andleg veikindi sín og fengið klapp fyrir. Við komumst að þeirri niðurstöðu að það væri fólki til hróss að vera svo opinskátt. Og viti menn, hvað gerist ekki næst?
Elísabet segir okkur að hún hafi komið í þáttinn niðrá Granda beint ofan af geðdeild. Þetta þótti okkur öllum tíðindi. Hún sagði okkur á sinn fallega, ljóðræna, og hreinskilna hátt upp og ofan af því. Og hvað gerist þá? Ásdís ákvað að vera jafn frökk og segja hlustendum frá því þegar hún fór á geðdeild, haldin svo miklum kvíða. Nú er ekkert aftur snúið. Þessi þáttur opnaði algerlega nýjar víddir og kallar á að gestir okkar haldi áfram á þessari braut. Skyldi fólki líða svona vel í settinu hjá okkur?

Nú, það liggur því í augum uppi að Ólafur F fékk því falleinkunn frá konunum í Mér finnst... að segja ekki opinberlega hvaða veikindi það voru sem hrjáðu hann/hrjá hann. En það er of seint fyrir hann að laga þá ímynd sem hann hefur fengið á sig - sögurnar eru þegar búnar að hringsólast. Hann leit ekki neitt sérstaklega hraustlega út á fréttafundinum fræga þar sem gráklæddir menn stóðu gráir og guggnir upp við gráan vegginn, eins og hann hefði barasta smitað þá alla. 82% Reykvíkinga segjast ekki treysta honum til starfans. Maðurinn er búinn að mála sig út í horn. Kannski hann fái þá samúðina fyrir það, líklegast það eina sem gæti bjargað honum á þessari stundu.
Mér finnst það....


Höld, bönd og skilnaðir hjóna

Þátturinn í gær var svo ólíkur þeim fyrri. Það skýrist af því að gestirnir voru af gerólíku sauðahúsi: Guðrún Bergmann og Björk Jakobs, sem hafði fengið Eddu Björgvins í heimsókn. Verð að viðurkenna að Guðrún Bergmann kom mér mjög svo á óvart, hreinskilnin var svo alger. Hún sagði frá eins og hún væri í eldhúsinu heima með systur sinni, ekki bláókunnugum konum fyrir framan myndavélar. Kannski áttum við að kunna eitthvað af þessum sögum, hún hefur án efa sagt einhvers staðar frá þeim áður. Eins og t.d. það að hún hafi eignast börn með manni sem var harðgiftur, og að eiginkona þessa manns hafi vel vitað af tilvist hennar og barnanna. En það var of mikið um að vera við borðið hjá okkur að við gátum ekki fengið betri skýringar á þessu, en mikið værum við forvitnar að heyra meir um þetta, og læra af öðrum tilfellum. Ætli þetta gerist oft? Hversu algeng eru framhjáhöld?
Ósjálfrátt fór umræðan í eina átt, þar sem við deildum um hjónabandið, aðallega þó um hvernig ætti að viðhalda því. Mér finnst þó að fólk ætti ekki að ganga of langt í því atferli, stundum eru hjónaböndin barasta komin á sinn endapunkt. Það sorglega er að þetta er orðið að heilli atvinnugrein, út um allan bæ hægt að finna "sérfræðinga" sem segja okkur allt um það hvernig á að halda í makann. Ég held að það segi sig sjálft að það eru ekki til neinar töfraformúlur sem geta kipp ónýtu hjónabandi í liðinn. Og þá kemur náttúrulega spurningin: af hverju eru hjónaskilnaðir enn álitnir svona sorglegir, agalegir, hræðilegir? Í flestum tilvikum er um ákvörðunartöku fólks að ræða sem léttir á fólki og opnar nýja heima, þó svo auðvitað séu undantekningar frá reglunni. Því þá ekki að gleðjast?
Það finnst mér...

Mér finnst...partý

Ellý Ármanns mætti náttúrulega með vélina í partýið hjá okkur á föstudeginum. Við höfðum boðið öllum skvísunum sem munu vera í þáttunum okkar í kokteil eftir að upptökum að fyrsta þættinum lauk. Svei mér ef við værum ekki til í að búa daglega í kommúnu með öllum þessum konum, það er svo gaman að vera innan um þenkjandi kynsystur sínar sem liggja ekki á skoðunum sínum - og svo eru þær allar svo fyndnar. Þvílík orka í húsinu, þakið gæti vel hafa farið af. Kíkið á upptökurnar: http://www.mbl.is/mm/svidsljos/sofaspjall.html?ss_id=28952

Fyrsti þátturinn

Þetta gekk vel. Vorum þó svolítið seinar í gang að ég held - ekki vissar um hvað við værum að gera, en svo kom það í ljós þegar á leið.

Við höfðum fengið töluvert af símtölum frá fjölmiðlum um morgunin og fengum þá spurninguna hvort tilgangurinn með þessum kvennaþætti væri einhvers konar mótmæli gegn Silfri Egils. Þetta fannst okkur ekki svo galin hugmynd og játtum því í skyndi. Hringdum svo í snatri í Egil og báðum hann um að vera leynigestur í þættinum. Og mikið var hann sætur og almennilegur, við höfðum varla sleppt orðinu og þá var hann mættur. Við vorum með áhyggjur af því að hann myndi ekki passa í sætið í settinu, pínulitlir barstólar sem rúma varla myndarlegan kvenmannsrass, hvað þá Egils. En þetta gekk upp. Og þar sem Egill var kominn í settið, ákváðum við að fjölga enn frekar í stúdóinu og hringja í Sóleyju Tómasdóttur, það var barasta við hæfi, þar sem debattið var upphaflega þeirra: af hverju eru konur innan við 20% þeirra sem teknir eru í viðtöl í fjölmiðlum? Þau reyndust þó vera bestu kumpánar þegar á reyndi. Við urðum eiginlega fyrir vonbrigðum hversu vel fór á með þeim, hefði verið svo skemmtilegt ef þau hefðu rifist örlítið.

Elísabet Jökuls og Ellý Ármanns eru ólíklegt par, fátt sem þær eiga sameiginlegt við fyrstu sýn, en það kom í ljós í þættinum sjálfum að báðar eru þær mjög svo opinskáar um kynlíf, á ólíkan hátt en eitthvað smellti. Elísabet felur ekki neitt í nýjustu bók sinni Lásasmiðurinn og Ellý virðist fátt fela í dægurmáladálkum sínum. Að vísu talar Elísabet út frá persónulegri reynslu en Ellý út frá "vinum sínum" sem eru þó oft "ímyndaðir" vinir, og því verðum við að segja að sögurnar hennar séu líka persónulegar. Við vorum auðvitað nokkuð taugatrekktar, ekki vissar að við myndum ná upp almennilegu flæði umræðna, og það er hægt að deila um það hvort það hafi tekist hjá okkur. Kannski vorum við of mikið að reyna að halda "conceptinu" réttu að þessi fyrsti þáttur tókst ekki sem skyldi. En við megum ekki gefast upp við fyrstu tilraun, þetta kemur allt saman.

Í kvöld mæta Björk Jakobs og Guðrún Bergmann. það verðum fróðlegt að sjá hvernig umræðuefnið, flæðið, talsmátinn verður öðruvísi með öðrum konum sem hafa allt ananrs konar bakgrunn heldur en Elísabet og Ellý.
Svo höldum við bara ótrauðar áfram.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband